top of page

Stofnfundargerð JHFÍ:

Stofnfundur Jarðhitafélags Íslands var haldinn föstudaginn 19. maí 2000 og hófst hann kl. 15:00. Fundurinn var hann haldinn í fyrirlestrasal Orkustofnunar, Grensásvegi 9.

 1. Samþykkt dagskrár

 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

 3. Aðdragandi fundarboðunar

 4. Samþykktir félagsins

 5. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga

 6. Önnur mál

  • Jarðhitafélag Íslands gerist aðili að IGA.

  • Hvað felur það í sér að vera aðili að IGA?

  • Frestur til að gerast stofnfélagi

 

Dagskráin fékk efitrfarandi afgreiðslu á fundinum:

 1. Samþykkt dagskrár. Guðmundur Pálmason lagði fram drög að dagskrá fundarins, og voru þau samþykkt.

 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Guðmundur Pálmason lagði fram tillögu að fundarstjóra og fundarritara. Gerði hann að tillögu sinni að Einar Tjörvi Elíasson yrði fundarstjóri og Ingibjörg Ásta Gunnarsdóttir fundarritari. Tillagan var samþykkt.

 3. Aðdragandi fundarboðunar. Ingvar Birgir Friðleifsson gerði grein fyrir aðdraganda fundarboðunar stofnfundar Jarðhitafélags Íslands.

Það var sjálfskipaður hópur áhugamanna um jarðhitamál sem boðaði til stofnfundar Jarðhitafélags Íslands. Þetta mál hefur verið til umræðu öðru hverju undanfarna tvo áratugi en ekki orðið úr framkvæmdum fyrr en nú. Aðstæður þykja nú réttar fyrir stofnun samtakanna. Ljóst er að það ríkir mikill áhugi á jarðhitamálum í íslensku þjóðfélagi um þessar mundir. Fjölmennur hópur Íslendinga er á leið til Japans til að taka þátt í alþjóðajarðhitaráðstefnunni WGC-2000. Með stofnun Jarðhitafélag Íslands nú getur félagið sótt um og fengið aðild að alþjóðlegu jarðhitasamtökunum IGA strax í sumar.

 1. Samþykktir félagsins. . Einar Tjörvi Elíasson lagði fram drög að samþykktum félagsins. Farið var yfir þau lið fyrir lið á fundinum og einstök atriði þeirra rædd. Hver og ein tillaga var lesin upp af Einari Tjörva Elíassyni, og lýst var eftir breytingartillögum. Þær voru svo ræddar, og tillögurnar lesnar upp aftur þar sem tillit hafði verið tekið til allra breytingatillagna sem fram höfðu komið.

 2. Tillögurnar voru svo samþykktar.

Grein # 1 í drögum að samþykktum hljóðaði svo:
Félagið heitir Jarðhitafélag Íslands (erlent heiti Geothermal Association of Iceland).

Grein # 1 í endanlegri samþykkt Jarðhitafelags Íslands hljóðar svo:
“Félagið heitir Jarðhitafélag Íslands (erlent heiti Geothermal Association of Iceland). Varnarþing félagsins er c/o ORKUSTOFNUN, Grensásvegi 9, 108 REYKJAVÍK”.

Grein # 2 í drögum að samþykktum hljóðaði svo:
Hlutverk félagsins er að stuðla að skynsamlegri nýtingu jarðhita og eflingu rannsókna á honum. Þessu hlutverki hyggst félagið gegna m.a. með því að:

 1. stuðla að kynningu á störfum íslenskra jarðhitamanna í hinum ýmsu greinum jarðhitafræða.

 2. efna til umræðufunda um áhugaverð mál tengd jarðhita.

 3. stuðla að samstarfi milli jarðhitamanna í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins þar sem jarðhiti er nýttur.

 4. vera aðili að alþjóðasamtökum og alþjóðasamvinnu á sviði jarðhita.

Grein # 2 í endanlegri samþykkt Jarðhitafelags Íslands hljóðar svo:
"Hlutverk félagsins er að stuðla að nýtingu jarðhita og eflingu rannsókna á honum. Þessu hlutverki hyggst félagið gegna m.a. með því að:

 1. kynna störf íslenskra jarðhitamanna.

 2. efna til umræðufunda um áhugaverð mál tengd jarðhita.

 3. efla samstarf jarðhitamanna í hinum ýmsu geirum atvinnulífsins.

 4. vera aðili að alþjóðasamtökum og alþjóðasamvinnu á sviði jarðhita."

Grein # 3 í drögum að samþykktum hljóðaði svo:
Félagsmenn geta orðið einstaklingar sem vilja vinna að markmiðum félagsins. Einnig geta fyrirtæki, stofnanir og hliðstæðir aðilar sem starfa að jarðhitamálum fengið aðild að félaginu. Tilgangurinn með slíkri aðild er að efla samstarf á öllum sviðum jarðhitamála svo og tengsl milli félagsmanna, fyrirtækja og stofnana.

Grein # 3 í endanlegri samþykkt Jarðhitafelags Íslands hljóðar svo:
"Félagsmenn geta orðið einstaklingar sem vilja vinna að markmiðum félagsins. Einnig geta fyrirtæki og stofnanir sem starfa að jarðhitamálum orðið aðilar að félaginu. Tilgangurinn með slíkri aðild er að efla samstarf á öllum sviðum jarðhitamála svo og tengsl milli félagsmanna, fyrirtækja og stofnana."


Grein # 4 í drögum að samþykktum hljóðaði svo:
Stjórn félagsins skipa fimm menn. Hver stjórnarmaður er kosinn til tveggja ára í senn. Formaður er kosinn sérstaklega, en stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti. Stjórn velur á fyrsta fundi sínum varaformann, ritara og gjaldkera. [Annað árið ganga úr stjórninni formaður og tveir aðrir stjórnarmenn, en hitt árið tveir stjórnarmenn.] Formaður má aðeins sitja tvö kjörtímabil í röð.

Grein # 4 í endanlegri samþykkt Jarðhitafelags Íslands hljóðar svo:
"Stjórn félagsins skipa sjö menn. Hver stjórnarmaður er kosinn til tveggja ára í senn. Formaður er kosinn sérstaklega, en stjórnin skiptir sjálf með sér verkum að öðru leyti. Stjórn velur á fyrsta fundi sínum varaformann, ritara og gjaldkera. Annað árið eru kosnir formaður og þrír aðrir stjórnarmenn, en hitt árið þrír stjórnarmenn. Formaður má aðeins sitja tvö kjörtímabil í röð."

Grein # 5 í drögum að samþykktum hljóðaði svo:
Aðalfund skal halda í maí hvert ár og á dagskrá hans skal m.a. vera eftirfarandi.

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Samþykkt dagskrár.

 2. Skýrsla stjórnar um starfsemina á liðnu ári.

 3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.

 4. Lögð fram fjárhagsáætlun næsta árs. Ákvörðun félagsgjalda.

 5. Kosin stjórn með skriflegri kosningu. Ennfremur skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara.

 6. Staðfesting á inntöku nýrra félaga.

 7. Önnur mál.


Aðalfund skal boða skriflega eða með tölvupósti með 10 daga fyrirvara. Hann er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum nema annað standi í samþykktum félagsins. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Fundarritari og fundarstjóri skrifa undir fundargerð sem send skal öllum félögum.

Grein # 5 í endanlegri samþykkt Jarðhitafelags Íslands hljóðar svo:
"Aðalfund skal halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert og á dagskrá hans skal m.a. vera eftirfarandi.

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Samþykkt dagskrár.

 2. Skýrsla stjórnar um starfsemina á liðnu ári.

 3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.

 4. Fram komnar breytingar á samþykktum félagsins.

 5. Lögð fram fjárhagsáætlun næsta árs til samþykktar. Ákvörðun félagsgjalda.

 6. Kosning stjórnar. Ennfremur skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara.

 7. Staðfesting á inngöngu nýrra félaga.

 8. Önnur mál.


Aðalfund skal boða skriflega eða með tölvupósti með minnst 10 daga fyrirvara. Hann er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum nema annað standi í samþykktum félagsins. Fundarritari og fundarstjóri skrifa undir fundargerð sem send skal öllum félögum."

Grein # 6 í drögum að samþykktum hljóðaði svo:
Breytingar á samþykktum félagsins er aðeins hægt að gera á aðalfundi. Tillögur um slíkar breytingar skulu kynntar í fundarboði og til þess að þær öðlist gildi þurfa þær að vera samþykktar með minnst 2/3 greiddra atkvæða.

Grein # 6 í endanlegri samþykkt Jarðhitafelags Íslands hljóðar svo:
"Breytingar á samþykktum félagsins er aðeins hægt að gera á aðalfundi. Tillögur um slíkar breytingar skulu sendar stjórn og kynntar í fundarboði og til þess að þær öðlist gildi þurfa þær að vera samþykktar með minnst 2/3 greiddra atkvæða."

Grein # 7 í drögum að samþykktum hljóðaði svo:
Tillögur eða beiðnir um upptöku nýrra félaga skulu sendar stjórninni, sem afgreiðir þær með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar. Stjórnin getur hafnað umsóknum án rökstuðnings."

Grein # 7 í endanlegri samþykkt Jarðhitafelags Íslands hljóðar svo:
"Tillögur eða beiðnir um inngöngu í félagið skulu sendar stjórninni, sem afgreiðir þær með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar."

Grein # 8 í drögum að samþykktum hljóðaði svo:
Árgjald einstaklinga og stofnana skal ákveðið á aðalfundi. Atkvæðisbærir á aðalfundi eru þeir einir, sem greitt hafa árgjöld sín. Hver stofnun getur tilnefnt fulltrúa sem fer með atkvæði hennar. Fulltrúi stofnunar hefur ekki kjörgengi til setu í stjórn nema hann sé félagi í Jarðhitafélagi Íslands. Félagi sem ekki hefur greitt árgjald 3 ár er strikaður út af félagaskrá og þarf að sækja aftur um inngöngu. Heiðursfélagar greiða ekki árgjald.

Grein # 8 í endanlegri samþykkt Jarðhitafelags Íslands hljóðar svo:
"Árgjald einstaklinga og stofnana skal ákveðið á aðalfundi. Atkvæðisbærir á aðalfundi eru þeir einir, sem greitt hafa árgjöld sín. Hver stofnun getur tilnefnt fulltrúa sem fer með atkvæði hennar. Félagi sem ekki hefur greitt árgjald 3 ár er strikaður út af félagaskrá og þarf að sækja aftur um inngöngu. Heiðursfélagar greiða ekki árgjald."

Grein # 9 í drögum að samþykktum hljóðaði svo:

Heiðursfélagar eru kosnir á aðalfundi samkvæmt tilnefningu stjórnar.

Grein # 9 í endanlegri samþykkt Jarðhitafelags Íslands hljóðar svo:

"Heiðursfélagar eru kosnir á aðalfundi samkvæmt tilnefningu stjórnar."

Auk þessa var eftirfarandi bráðabirgðarákvæði samþykkt:

"Á stofnfundi skuli formaður og þrír stjórnarmenn kosnir til tveggja ára og þrír stjórnarmenn til eins árs."

 1. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga. Einar Tjörvi Elíasson bar upp tillögur hópsins varðandi kjör stjórnarmanna og skoðunarmanna reikninga félagsins. Fyrst var gerð tillaga um fyrsta formann Jarðhitafélags Íslands. Stungið var upp á Guðmundi Pálmasyni og var tillagan samþykkt með lófaklappi. Aðrir stjórarmenn sem tilnefndir voru eru: María Jóna Gunnarsdóttir, Stefán Arnórsson og Ingvar Birgir Friðleifsson til tveggja ára, og Oddur Björnsson, Valgarður Stefansson og Einar Tjörvi Elíasson til eins árs. Tilnefningar um skoðunarmenn reikninga félagsins voru tvær: Gestur Gíslason og Gunnar Ingi Gunnarsson, og Benedikt Steingrímsson til vara. Tillögurnar voru samþykktar á fundinum.

 2. Önnur mál.

  • Jarðhitafélag Íslands gerist aðili að IGA. Guðmundur Pálmason tók við fundarstjórn á þessu stigi. Hann byrjaði á að þakka þann heiður og það traust sem honum er sýnt með formannskjörinu. Hann bar upp þá tillögu að Jarðhitafélag Íslands gerðist aðili (affiliated organization) að IGA (Interational Geothermal Association). Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.. Stjórn Jarðhitafélags Íslands mun nú vinna að gerð umsóknarinnar og koma henni til réttra aðila.

  • Hvað felur það í sér að vera aðili að IGA? Valgarður Stefánsson gerði grein fyrir hvað aðild að IGA felur í sér. Ísland verður þá 17. aðildarfélag IGA. Það felur m.a. í sér eftirfarandi: Ódýra áskrift að Geothermics, að IGA News er sent til meðlima fjórum sinnum á ári og að meðlimir fá afslátt af ráðstefnugjöldum á ráðstefnur þær sem sambandið heldur, auk þess sem aðild eykur möguleika á náinni samvinnu við önnur aðildarríki IGA; sérstaklega önnur Evrópuríki.

  • Frestur til að gerast stofnfélagi. Ákveðið var á fundinum að frestur til að gerast stofnfélagi í Jarðhitafélagi Íslands myndi renna út 31. desember 2000.

bottom of page