Þrír Íslendingar í stjórn Alþjóðajarðhitasambandsins (IGA)

Gústaf Skúlason Í sumar fóru fram rafrænar kosningar til stjórnar Alþjóðajarðhitasambandsins (IGA). Þrír Íslendingar voru í kjöri og allir fengu þeir margfalt atkvæðavægi Íslands og náðu glæsilegu kjöri til setu í 30 manna stjórn félagsins næstu þrjú árin. Alls voru 42 í framboði.

Íslendingarnir þrír eru:
- Árni Ragnarsson, ÍSOR og fráfarandi framkvæmdastjóri IGA, tilnefndur af fráfarandi stjórn
- Benedikt Steingrímsson, aðstoðarforstjóri ÍSOR, tilnefndur af Jarðhitafélagi Íslands (JHFÍ) til áframhaldandi setu í stjórn IGA
- Bjarni Pálsson, Landsvirkjun Power og varaformaður JHFÍ, tilnefndur af stjórn JHFÍ.

Kjörsókn var um 33%. Eins og búast mátti við áttu þeir sem sóttust eftir endurkjöri góðu gengi að fagna og voru 13 af 14 endurkjörnir. Því börðust 28 nýliðar um þau 17 sæti sem eftir voru.

Endurspeglar virðingu fyrir jarðhitastarfi Íslendinga

Nýja-Sjáland hlaut einnig þrjú stjórnarsæti en önnur ríki færri. Þessi niðurstaða hlýtur að endurspegla virðingu fagmanna á jarðhitasviðinu gagnvart starfi íslenskra kollega og viðleitni okkar til að stuðla að frekari útbreyðslu jarðhitanýtingar í heiminum.

Nýja stjórnin tekur við á aðalfundi félagsins sem haldinn verður 28.-29. október n.k. í tengslum við GRC ráðstefnuna í Sacramento.