Kristján Sæmundsson kjörinn heiðursfélagi í Jarðhitafélagi Íslands

Gústaf Skúlason Á aðalfundi Jarðhitafélags Íslands miðvikudaginn 14. apríl var Kristján Sæmundsson kjörinn heiðursfélagi í félaginu. Í tillögu stjórnar, sem samþykkt var með lófataki, segir:

Kristján er í hópi virtustu vísindamanna í heiminum á sviði jarðhita og eldfjallafræði.  Rannsóknir hans hafa stóraukið þekkingu manna á jarðfræði Íslands, uppbyggingu gosbelta, megineldstöðum og eðli jarðhitans.

Kristján fæddist árið 1936. Hann lauk doktorsnámi í jarðvísindum frá Háskólanum í Köln árið 1966 og hefur unnið allan sinn starfsaldur á Orkustofnun og Íslenskum orkurannsóknum, eftir stofnun þeirra árið 2003. Lengst af gegndi hann stöðu deildarstjóra jarðfræðideildar.

Auk almennrar jarðfræðikortlagningar víðs vegar um land hafa aðalviðfangsefni hans falist jarðhitaleit á Íslandi og eru ekki mörg jarðhitasvæðin á landinu þar sem hann hefur ekki komið að rannsóknum og staðsetningu borholna.  Hefur hann náð gríðarlegum árangri í öflun jarðhita um allt land, mun meiri en nokkur annar einstaklingur. Einnig hefur Kristján stundað ráðgjöf víða erlendis við jarðhitarannsóknir, kennslu og þjálfun. Kristján starfar nú sem sérfræðingur í jarðhitamálum og jarðfræði hjá ÍSOR. 

Árið  2006 var Kristján kjörinn heiðursdoktor Háskóla Íslands. Hann var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar árið 2007. Hann var kjörinn heiðursfélagi bandaríska jarðfræðafélagsins Geological Society of America árið 1993 og fékk heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Wright árið 2003.