Jarðhitafélag Íslands styrkir tvo doktorsnema

Gústaf Skúlason

Stjórn Jarðhitafélags Íslands styrkir í ár tvo íslenska doktorsnema til að sækja alþjóðlegar jarðhitaráðstefnur. Styrkþegarnir eru Edda Sif Pind Aradóttir og María Sigríður Guðjónsdóttir. Hvor um sig fær allt að kr. 350 þúsund til að greiða ferða- og uppihaldskostnað ásamt ráðstefnugjöldum. Á myndinni hér til hliðar afhendir Jakob S. Friðriksson, formaður Jarðhitafélags Íslands, þeim Eddu (til vinstri) og Maríu (til hægri) skjal um styrkinn.

Edda Sif Pind Aradóttir leggur stund á doktorsnám á sviðum efna- og forðafræði við efnafræðiskor Raunvísindadeildar Háskóla Íslands. Doktorsverkefni hennar felst í þróun á samtengdum efna- og forðafræðilíkönum af íslenskum jarðhitasvæðum. Edda Sif mun nýta styrkinn til að sækja haustþing AGU (American Geophysical Union) í San Francisco í desember 2010 og mun hún kynna doktorsverkefni sitt á þinginu. Edda Sif starfar samliða doktorsnámi sínu hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Edda Sif er með BS gráðu í efnaverkfræði og MS gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað á Rannsóknadeild Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 2003.

María Sigríður Guðjónsdóttir leggur stund á doktorsnám í verkfræði við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands (samstarfsverkefni skólanna tveggja). Doktorsverkefni hennar er á sviði forðafræði jarðhita, þar sem mælingar verða gerðar á tveggja fasa streymi vatns og gufu í jarðhitakerfum. María mun nýta styrkinn til að sækja ráðstefnu GRC (Geothermal Resources Council) í Sacramento í október 2010, þar sem hún mun kynna grein sem fjallar um doktorsverkefni hennar. María er með B.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og Dipl. Ing. gráðu í vélaverkfræði frá Tækniháskólanum í München, en lokaverkefni hennar þar var unnið í samstarfi við BMW bílaframleiðandann. María hefur starfað sem verkfræðingur á jarðvarmasviði verkfræðistofunnar Mannvits og hjá BMW í Þýskalandi.


Árlegur styrkur Jarðhitafélagsins

Vorið 2010 ákvað stjórn Jarðhitafélags Íslands að veita íslenskum háskólanemum í doktorsnámi, í fagi tengdu jarðhita, allt að 350 þúsund króna styrk til að sækja alþjóðlega jarðhitaráðstefnu. Skyldi styrkurinn veittur einu sinni á ári næstu þrjú ár, frá og með árinu 2010, til að greiða ferða- og uppihaldskostnað ásamt ráðstefnugjöldum. Með tilliti til fimm auglýstra valskilyrða taldi stjórn félagsins sér ekki fært að gera upp á milli umsókna Eddu Sifjar og Maríu Sigríðar og varð niðurstaðan því sú að þær hlytu báðar styrk í ár.