Einföldun regluverks, falleinkunn stjórnvalda, skortur á lagaheimildum

12.4.2011 Gústaf Skúlason

Vorfundur Jarðhitafélags Íslands var haldinn undir yfirskriftinni Stendur jarðhitinn í stjórnkerfinu? Fundinn, sem haldinn var í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur, sóttu rúmlega 70 manns.


Iðnaðarráðherra: Nei
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ávarpaði fundinn og svaraði yfirskriftinni neitandi. Vísaði hún m.a. til áforma um mikla jarðhitanýtingu til raforkuframleiðslu á næstu misserum. Katrín sagði það hafa verið gagnrýnt að ákveðnir þættir regluverksins væru óþarflega flóknir og tímafrekir. „Ef það er sannarlega svo þá er auðvitað verkefnið að slétta út óþarfa fyrirstöður,“ sagði Katrín, en ekki yrði þó gefinn afsláttur af eðlilegum kröfum sem lúta að náttúrunni og varanleika auðlindarinnar. Þá fjallaði Katrín m.a. um verkefni íslenskra orkufyrirtækja, verkfræðistofa o.fl. á erlendri grundu, rammaáætlun, djúpboranir og margt fleira. Sjá erindi ráðherra á vef iðnaðarráðuneytisins.


Forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar HR: Íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir krefjast skýrra lagaheimilda
Kristín Haraldsdóttir forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík fjallaði um svigrúm stjórnvalda við val á markmiðum og leiðum, m.a. út frá stjórnarskrá og áhrifum þjóðaréttar. Sagði Kristín m.a. tengsl markmiðssetningar og leiða í gildandi löggjöf væru ekki ávallt skýr, sem ylli gjarnan togstreitu. Þá hefði t.d. umhverfisrétturinn þróast til hliðar við orkuréttinn, ekki með honum. Kristín ræddi m.a. um einkavæðingu Hitaveita Suðurnesja að hluta og síðar sölu HS til erlends aðila og sagði hvoru tveggja dæmi um skort á skýrum lagaramma fyrir markmiðssetningu stjórnvalda. Lagði Kristín áherslu á að skýrar lagaheimildir þyrfti fyrir íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunum hverju sinni, að teknu tilliti til stjórnarskrár og þjóðaréttar. Sjá erindi (glærur) Kristínar.


Forstjóri HS Orku: Falleinkunn frá sjónarmiði nýtingar
Júlíus J. Jónsson forstjóri HS Orku lagði áherslu á að hann horfði til allra stiga stjórnkerfisins, ráðuneyta, stofnana þeirra, sveitarfélaga o.s.frv. Sagði hann stjórnvöld hafa staðið sig vel ef gengið væri út frá því að megináherslan væri á vernd jarðhitasvæði. Öll nýting yrði sífellt erfiðari, tímafrekari og kostnaðarsamari. Ef gengið væri út frá því að megináhersla stjórnkerfisins væri á nýtingu þá væri varla hægt annað en að gefa stjórnkerfinu falleinkunn. Júlíus sagði ljóst að jarðhitinn stæði í „kerfinu“ og brýnt að gera það skilvirkara en nú væri. Sjá erindi (glærur) Júlíusar.

Í pallborðsumræðum tóku jafnframt þátt þau Gunnar Tryggvason úr stýrihóp um mótun heildstæðrar orkustefnu og Svanfríður Jónasdóttir formaður verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar. Sjá dagskrá fundarins hér.