160 formleg erindi vegna einnar virkjunar

26.11.2013 Gústaf Skúlason Á 10 ára tímabili voru send 160 formleg erindi til stjórnsýslustofnana vegna leyfiveitingaferla fyrir Hellisheiðarvirkjun. Þetta kom m.a. fram í erindi Auðar Andrésdóttur, sviðsstjóra hjá Mannviti, sem kynnti vinnu starfsskilyrðahóps Jarðvarmaklasans á haustfundi Jarðhitafélags Íslands sem haldinn var í samvinnu við Íslenska orkuháskólann. Á vettvangi klasans er unnið að tillögum til úrbóta á sviði leyfiveitingaferla og kynnti Auður nokkrar slíkar í erindi sínu. Einnig fjallaði Kristín Haraldsdóttir, forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík, um regluverk jarðhitanýtingar. Kom hún m.a. inn á víðtækan kærurétt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, óskýr og á stundum ósamræmanleg markmið laga og mikinn fjölda aðila sem fari með stjórnvaldsákvarðanir. Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði fundinn, en ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á einföldun regluverks jarðhitanýtingar.

Erindi (glærur) fundarins má nálgast hér:

Setning fundarins
Bjarni Pálsson, formaður Jarðhitafélags Íslands, deildarstjóri virkjanadeildar Landsvirkjunar

Ávarp (linkur síðar á vef ráðuneytis)
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra

Regluverk jarðhitanýtingar
Kristín Haraldsdóttir, forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar HR

Kynning á starfi starfsskilyrðahóps Jarðvarmaklasans
Auður Andrésdóttir, sviðsstjóri, umhverfi og öryggi, Mannviti

Fundarstjóri var Halla Hrund Logadóttir, framkvæmdastjóri Íslenska orkuháskólans, og fundurinn var haldinn í húsakynnum Háskólans í Reykjavík. Sjá fulla dagskrá fundarins hér.